Framlengdur spennutryllir gegn Noregi

Logi Guðmundsson fagnar körfu í leiknum í dag.
Logi Guðmundsson fagnar körfu í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska 18 ára landsliðið í körfuknattleik leikur um 11. sætið í B-deild Evrópumóts pilta í Skopje í Norður-Makedóníu eftir ósigur gegn Norðmönnum í æsispennandi og framlengdum leik í dag, 77:73.

Ísland mætir tapliðinu í leik Ungverjalands og Írlands síðar í dag en Norðmenn leika um 9. sætið við sigurliðið.

Leikurinn var í járnum allan tímann en Norðmenn voru yfir í hálfleik, 38:35. Ísland komst níu stigum yfir snemma í síðari hálfleik en Norðmenn jöfnuðu og síðan voru liðin með forystuna til skiptis. Norðmenn jöfnuðu í 68:68 þegar 45 sekúndur voru eftir og liðin nýttu ekki færi á spennuþrungnum lokakafla þannig að grípa þurfti til framlengingar.

Í framlengingunni komst Ísland í 73:68 en Norðmenn svöruðu því og komust yfir, 74:73, þegar rúmlega hálf mínúta var eftir. Þeir fylgdu því eftir með þremur stigum á löngum lokasekúndum og unnu með fjórum stigum þegar upp var staðið.

Birkir Eyþórsson skoraði 22 stig fyrir Ísland og tók 6 fráköst, Logi Guðmundsson skoraði 21 stig og tók 7 fráköst og Kristófer Björgvinsson skoraði 14 stig og átti átta stoðsendingar. Viktor Lúðvíksson tók 14 fráköst og skoraði 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert