Gamall Tindastólsmaður í heiðurshöll í Slóvakíu

Milan Rozanek með blómvönd sem hann fékk þegar hann var …
Milan Rozanek með blómvönd sem hann fékk þegar hann var heiðraður. Ljósmynd/Academic Zilina

Milan Rozanek, fyrrverandi þjálfari körfuknattleiksliðs Tindastóls, var á fimmtudaginn tekinn inn í heiðurshöll körfuboltans í Slóvakíu fyrir ævistarf sitt í þágu íþróttarinnar í landinu.

Milan, sem er nú 83 ára gamall, þjálfaði karlalið Tindastóls veturinn 1990-1991 en þá var það með sjálfan Pétur Guðmundsson, eina NBA-leikmann Íslands, í sínum röðum og auk þess leikmenn á borð við Val Ingimundarson og Sverri Sverrisson.

Milan var unglingalandsliðsmaður Tékkóslóvakíu í bæði körfuknattleik og frjálsíþróttum og starfaði síðan við þjálfun í landinu um árabil áður en hann kom til Sauðárkróks, þjálfaði m.a. B-landslið Tékkóslóvakíu.

Hann fór aftur á heimaslóðirnar og vann þar við þjálfun í körfubolta fram yfir áttrætt, hjá félagsliðum og yngri landsliðum og starfaði jafnframt sem íþróttakennari. Síðast þjálfaði hann lið Zilina í efstu deild í Slóvakíu tímabilið 2021-22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert