Körfuknattleikskonan Daniela Wallen leikur ekki áfram með Keflavík á næstu leiktíð, en hún hefur verið einn besti leikmaður kvennaliðs félagsins undanfarin fimm tímabil.
Keflavík kveður leikmanninn á Facebook í dag og þakkar henni innilega fyrir vel unnin störf innan- og utanvallar undanfarin ár.
Á fimm tímabilum skoraði hún 21,2 stig, tók 13,3 fráköst og gaf 4,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Átti hún sinn þátt í að Keflavík vann þrefalt á síðustu leiktíð og varð deildar- bikar- og Íslandsmeistari.
„Við viljum þakka Dani fyrir allt sem hún gerði á hennar tíma hér í Keflavík og óskum henni alls hins besta í öllum þeim verkefnum sem eru fram undan hjá henni,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.