Slæmt tap íslenska liðsins

Sara Björk Logadóttir var stigahæst í liði Íslands.
Sara Björk Logadóttir var stigahæst í liði Íslands. Ljósmynd/FIBA

Íslenska U16 ára kvennalandsliðið í körfubolta tapaði stórt, 77:51, gegn Litháen í B-deild Evrópumótsins í Konya í Tyrklandi í dag.  

Þetta er annað tap Íslands á mótinu en liðið þurfti að þola tap gegn Bosníu. Liðið vann hins vegar sterkan sigur gegn Eistlandi í gær. 

Íslenska liðið byrjaði viðureignina vel og var 17:16 yfir eftir fyrsta leikhluta. Litháen var hins vegar töluvert betra liðið í öðrum leikhluta og var staðan 37:28 í hálfleik.  

Litháen stækkaði forskotið í síðari hálfleik og enduðu leikar með 77:51 sigri Litháens.  

Sara Björk Logadóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 10 stig. Hún tók einnig sjö fráköst.  

Adda Sigríður Ásmundsdóttir og Rebekka Rut Steingrímsdóttir skoruðu báðar sjö stig.  

Síðasti leikur riðilsins fer fram gegn Bretlandi á þriðjudaginn næstkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert