Körfuknattleiksþjálfarinn Benedikt Guðmundsson tók við karlaliði Tindastóls eftir síðustu leiktíð og er á leiðinni í sitt fyrsta tímabil á Sauðárkróki. Mun hann þjálfa Tindastólsliðið meðfram því að þjálfa kvennalandslið Íslands. Benedikt kemur til Tindastóls frá Njarðvík, þar sem hann þjálfaði karlaliðið í þrjú ár.
„Þeir höfðu samband við mig fljótlega eftir að ég kláraði tímabilið með Njarðvík. Það var orðið ljóst í febrúar að ég yrði ekki áfram í Njarðvík. Ég hugsaði þetta vel og vandlega og niðurstaðan varð sú að ég yrði að prófa að búa í Skagafirðinum áður en ég hætti þessu. Þetta er staður sem maður verður að prófa.
Það er ákveðin stemning að búa í Skagafirði og þjálfa Tindastól. Hér er áhuginn gígantískur og að mínu mati er þetta draumavinnan ef þú ert að þjálfa körfubolta á Íslandi,“ sagði Benedikt í samtali við Morgunblaðið.
Hann er afar spenntur að þjálfa í þeirri miklu stemningu sem er í Skagafirði, þar sem körfubolti er íþrótt númer eitt og áhuginn afar mikill.
„Áhuginn og stemningin eru rosaleg og ekki bara á heimaleikjum. Fólk frá Króknum, bæði þeir sem búa þar enn þá og þeir sem eru fluttir, fara á mikið af útileikjum. Stuðningurinn er gríðarlegur. Það er alltaf stemning að koma og spila á Króknum og svo er mikill metnaður hérna. Að vera á stað þar sem fólk deilir körfuboltaveikinni með manni er draumur,“ sagði Benedikt.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.