Íslenska stúlknalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 16 ára og yngri mátti sætta sig við tap fyrir Bosníu og Hersegóvínu, 83:72, í leik liðanna um 13.-14. sæti B-deildar EM 2024 í Konya í Tyrklandi í dag.
Þar með hafnar íslenska liðið í 14. sæti á mótinu.
Staðan var jöfn, 42:42, að loknum fyrri hálfleik og var útlitið gott þegar Ísland var með sex stiga forystu, 63:57, að þriðja leikhluta loknum.
Slæmur fjórði leikhluti varð íslenska liðinu hins vegar að falli þar sem Bosnía skoraði 26 stig gegn aðeins níu hjá Íslandi og niðurstaðan því 11 stiga tap.
Sara Logadóttir var stigahæst hjá Íslandi með 17 stig og fjögur fráköst.
Rebekka Steingrímsdóttir bætti við 15 stigum, sex fráköstum, fjórum stoðsendingum og fimm stolnum boltum. Þórey Þorleifsdóttir var þá með 14 stig og fimm fráköst.