Stýrir Hetti fjórtánda árið í röð

Viðar Örn Hafsteinsson verður áfram þjálfari Hattar.
Viðar Örn Hafsteinsson verður áfram þjálfari Hattar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Viðar Örn Hafsteinsson hefur skrifað undir nýjan samning við körfuknattleiksdeild Hattar og mun því þjálfa karlaliðið fjórtánda árið í röð.

Viðar Örn mun þá vera með yfirþjálfari yngri flokka félagsins ásamt Salva Guardia, sem er aðstoðarþjálfari hans hjá meistaraflokki karla.

Höttur leikur í úrvalsdeildinni og er á leið í sitt þriðja tímabil í röð á meðal þeirra bestu.

Við sama tilefni tilkynnti Höttur að leikmaðurinn Sigmar Hákonarson hafi sömuleiðis skrifað undir nýjan samning og muni brátt hefja sitt 15. tímabil með uppeldisfélaginu, en Sigmar er 32 ára gamall.

Þá hefur Andri Hrannar Magnússon verið tekinn inn í æfingahóp meistaraflokks karla. Hann er alinn upp hjá Hetti og sneri aftur til félagsins á síðasta ári eftir að hafa stundað nám í Danmörku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert