Heppinn að vera lifandi

Willie Cauley-Stein, til hægri, í leik með Sacramento Kings.
Willie Cauley-Stein, til hægri, í leik með Sacramento Kings. AFP

Bandaríski körfuboltamaðurinn Willie Cauley-Stein er að eigin sögn heppinn að vera lifandi. Cauley-Stein, sem er 31 árs, var valinn sjötti í nýliðavalinu í NBA-deildinni árið 2015.

Hann lék með Sacramento Kings, Golden State Warriors, Dallas Mavericks og Philadelphia 76ers á þeim sjö árum sem hann spilaði í NBA. Leikmaðurinn lék síðast á Ítalíu, en hann hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár.

„Ég er heppinn að vera lifandi. Ég hélt ég væri að taka Percocet-pillur en það sem ég var í raun og veru að taka voru pillur með fetanýl. Ég hef heyrt af krökkum sem taka eina svoleiðis og deyja,“ sagði Cauley-Stein við Athletic og hélt áfram:

„Ég tók endalaust af þessum töflum í marga mánuði og þær hefðu auðveldlega getað dregið mig til dauða,“ sagði hann og bætti við að hann ætli sér að komast aftur í NBA-deildina og halda sér edrú fyrir fjölskylduna.

Besta tímabil Cauley-Stein í NBA-deildinni var leiktíðina 2017/18 er hann skoraði 12,8 stig að meðaltali í leik, tók sjö fráköst og gaf 2,4 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka