„Það komu tímar þar sem mig langaði ekki að fara á æfingu, mig langaði bara að vera heima með fjölskyldunni minni,“ sagði Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur í körfubolta, í Fyrsta sætinu.
Ólafur, sem er 33 ára gamall, fór alla leið í úrslit Íslandsmótsins með Grindvíkingum á síðustu leiktíð þar sem liðið tapaði fyrir Val í oddaleik á Hlíðarenda en tímabilið í fyrra var vægast sagt skrítið fyrir Grindvíkinga vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
Ólafur var búinn á því andlega eftir oddaleikinn gegn Val í maí en hélt þrumuræðu á lokahófi félagsins.
„Það er erlendu leikmönnunum okkar að þakka að við héldum allir geðheilsunni,“ sagði Ólafur.
„Ég fann engin orð eftir oddaleikinn gegn Val inn í klefa en ég hélt ræðu á lokahófinu þar sem ég þakkaði stuðningsmönnunum fyrir stuðninginn, styrktaraðilunum okkar og svo erlendu leikmönnunum okkar.
Ég var búinn að skrifa einhverja punkta hjá mér fyrir lokahófið en konan mín tjáði mér það að ef ég væri að fara lesa upp ræðu af einhverju blaði þá myndi ég gleyma mér og stama. Hún sagði mér að tala bara frá hjartanu,“ sagði Ólafur meðal annars.