„Mér líst mjög vel á deildina í ár. Tilfinningin er sú að hún hafi orðið sterkari með hverju árinu undanfarinn áratug,“ sagði Pavel Ermolinskij, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið.
„Það er mjög ánægjulegt og það er gaman að sjá að það eru mörg andlit, þá er ég helst að tala um erlenda leikmenn, sem halda sér í deildinni þótt þeir kannski fari á milli liða.
Það myndast smá festa í þessu. Alltaf á þessum tíma líst mér rosalega vel á þetta og í mjög langan tíma hefur deildin staðið undir sér,“ hélt hann áfram.
Keppni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik hefst í kvöld með fjórum leikjum.
Tindastóll, sem Pavel þjálfaði síðustu tvö tímabil og gerði að Íslandsmeisturum í fyrsta sinn á síðasta ári, mætir nýliðum KR, sem hann var sigursæll með sem leikmaður. Þór fær Njarðvík í heimsókn til Þorlákshafnar, Álftanes mætir Keflavík á heimavelli og Haukar fá Hött í heimsókn í Hafnarfjörðinn.
Spurður hvaða liðum hann býst við í toppbaráttu deildarinnar í ár sagði Pavel:
„Það hefur þróast í þá átt að sá listi verður lengri og lengri með hverju ári. Það bætist eitt nýtt lið við og þetta er komið vel yfir hálfa deildina sem stefnir á að reyna að gera eitthvað.
Hringdu í mig eftir tvær vikur, ég verð með þetta skýrara þá! Núna er ég bara að skjóta út í loftið. En það eru fleiri lið en færri í deildinni sem vilja gera eitthvað.“
Hann var þá beðinn að rýna í botnbaráttuna.
„Það eru auðvitað alltaf nýliðarnir sem þurfa að taka fyrsta árið í að koma sér fyrir. Ég ímynda mér nú að KR-ingarnir verði ekki þarna en ÍR og Haukar verða þar. Sá listi er ekki jafn langur en það gerist líka einhvern veginn á hverju einasta ári að það er eitt lið sem er óvænt þarna,“ sagði Pavel.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.