Körfuboltakonan Bo Guttormsdóttir-Frost mun spila með Njarðvík í úrvalsdeild kvenna í vetur.
Bo er 185cm á hæð og 16 ára gömul og spilaði allan sinn yngriflokka feril með Stjörnunni áður en hún fór til Valencia á Spáni.
„Bo er ungur og spennandi leikmaður sem kemur til með að styrkja sterkan hóp enn frekar í baráttunni. Hún bæti auðvitað upp á sentímetrana hjá okkur þar sem að hún er er hávaxinn leikmaður og einnig fjölhæf á boltann,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari kvennaliðsins í tilkynningu liðsins.
„Ég tel þetta vera rétt skref fyrir minn feril akkúrat núna. Liðið er sterkt, aðstaðan stórglæsileg og ég hef trú á að Njarðvík geti barist um titla í vetur. Ég legg mig 120% í þau verkefni sem ég fæ í hendurnar og vonandi hjálpa liðinu að ná eins hátt og hægt er,“ sagði Bo í samtali við heimasíðu liðsins.