Óhugnanlegt atvik átti sér stað undir lok leiks Hauka og Aþenu í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í kvöld þegar Ajulu Obur Thatha, leikmaður Aþenu, fékk högg á höfuðið og var að lokum flutt í sjúkrabíl á sjúkrahús.
Thatha, sem var stigahæst leikmanna Aþenu í leiknum í Ólafssal að Ásvöllum, var studd af velli eftir höfuðhöggið en stuttu síðar var kallað hástöfum: „Er læknir í húsinu?“
Hún hlaut í kjölfarið aðhlynningu við varamannabekk Aþenu og var þá með meðvitund.
Sjúkraflutningamenn mættu svo á vettvang, huguðu enn frekar að Thatha og báru hana svo með sjúkrabörum í sjúkrabíl við lófatak viðstaddra í Ólafssal.
Mun Thatha gangast undir frekari skoðanir á sjúkrahúsi.