Elvar Már Friðriksson átti afar góðan leik fyrir gríska liðið Maroussi þegar það lagði sænska liðið Norrköping örugglega að velli, 99:80, í fyrstu umferð G-riðils Evrópubikars FIBA í körfuknattleik í kvöld.
Njarðvíkingurinn Elvar Már var með tvöfalda tvennu er hann skoraði 13 stig og gaf 13 stoðsendingar ásamt því að taka þrjú fráköst. Lék hann í tæplega 32 mínútur í kvöld.
Maroussi fer því af stað með besta móti í Evrópubikarnum. Í G-riðli eru einnig Spirou Charleroi frá Belgíu og Sabah Baku frá Aserbaídsjan.