Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var stigahæsti leikmaður Alba Berlín þegar liðið mátti sætta sig við tap gegn Barcelona, 88:73, á útivelli í Euroleague, stærstu félagsliðakeppni körfuboltans fyrir utan NBA, í kvöld.
Martin, sem er fyrirliði Alba Berlín, skoraði 13 stig, tók tvö fráköst og gaf fimm stoðsendingar á 27 og hálfri mínútu í kvöld.
Alba Berlín er á botni Euroleague eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum. Átján lið skipa keppnina.