Kjartan Atli Kjartansson þjálfari karlaliðs Álftanes í Körfubolta var svekktur með 9 stiga tap gegn Njarðvík í kvöld. Jafnræði var á með liðunum allan leikinn og náði Álftanes forskoti í byrjun fjórða leikhluta og leit út fyrir að gestirnir myndu landa sigri á Njarðvíkingum. Spurður út í sárt tap í kvöld sagði Kjartan Atli þetta.
"Jú ég held að sárt sé gott lýsingarorð og svekkjandi. Það eru svona tvö bestu orðin sem koma upp í hugann til að lýsa þessu."
Í þriðja leikhluta kemst Njarðvík 8 stigum yfir. Eftir 2 mínútur og 28 sekúndur í fjórða leikhluta var Álftanes búið að jafna í stöðunni 70:70. Þið komist yfir en síðan tapast leikurinn. Hvað gerðist?
"Þetta voru stór "play" ef ég nota körfuboltafagmálið sem skilur að eftir þetta. Þeir fundu bragðið af vítalínunni aftur og við brutum á þeim. Síðan voru þeir gríðarlega öflugir í sóknarfráköstum þegar fór að líða á leikinn. Það sem gerist síðan er að þegar þeir eru að skora af vítapunktinum þá hægist á leiknum og við förum að vera staðari í sókninni og þeir náðu taktinum yfir til sín."
Og það er það sem á endanum skilur liðin að?
"Það gerir það og þeir setja stórar körfur og gera það vel. Þeir voru í stuði í lokin og skutu mjög vel fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik. Mér fannst þeir halda sér þannig inni í leiknum í fyrri hálfleik. Við vorum betri þegar við fórum inn í hálfleikinn og ákafari en síðan í seinni hálfleik náðu þeir ákefðinni yfir til sín og það er eitthvað sem við þurfum að skoða."
Í fyrri hálfleik þegar Njarðvíkingar voru að elta þá voru þeir alltaf alveg í hælunum á ykkur og ná einhvernvegin alltaf samskonar skotum og Álftanes. Ef þið settuð þriggja stiga körfu þá gerðu þeir það sama hinumegin og þá spyr maður sig hvort það hafi einhver sálræn áhrif að vera með andstæðinginn svona nartandi í hælana á sér allan þennan tíma?
"Nei nei ég held að það sé nú ekki þannig. Þeir bara settu stór skot ofaní og við erum það sjóaðir að við höfum alveg séð það áður. Síðan sérðu að þegar þessi stóru skot hjá þeim detta ekki þá komumst við inn í leikinn."
Nú eru tveir leiki búnir og enginn sigur. Er það áhyggjuefni fyrir Álftanes?
"Það er ekki áhyggjuefni en það er svekkjandi. Þetta er langur vetur og lítið búið af tímabilinu. Tveir mjög jafnir leikir sem við hefðum hæglega getað unnið. En það er ljóst að við þurfum að bæta okkur og við munum gera það."
Það er stutt síðan leikurinn kláraðist og munurinn mest allan leikinn var aldrei meiri en 2-3 stig. Ef þú fengir að spila þennan leik strax aftur núna, hverju myndir þú breyta þannig að þú fengir þá trú að Álftanes myndi vinna leikinn?
"Þetta er mjög góð spurning. Ákefðarstigið hjá okkur var hátt. Ég myndi vilja fá meiri ákveðni í sókninni, aðeins meira flæði og meiri árásarham sóknarlega. Það er svona það sem ég myndi vilja laga svona strax eftir leik," sagði Kjartan Atli í samtali við mbl.is.