Troðslan frá Super Mario var náðarhöggið

Rúnar Ingi Erlingsson er þjálfari Njarðvíkur.
Rúnar Ingi Erlingsson er þjálfari Njarðvíkur. Eggert Jóhannesson

Njarðvík lék fyrsta leik sinn á nýjum heimavelli í Innri Njarðvík í kvöld þegar Njarðvíkingar unnu Álftanes í glænýrri höll sinni í úrvalsdeild karla í körfubolta.

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum kampakátur með sigurinn í þessum spennuleik þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik og spurði hann út í leikinn.

„Þetta var hörkuleikur og geggjuð stemmning. Umgjörðun var frábær og heilt yfir bara leikur tveggja góðra liða. Álftanes er vel mannað lið sem erfitt er að eiga við. Við vorum í miklu basli með þá varnarlega í fyrri hálfleik og náðu sem betur fer að stilla þetta aðeins í gegnum leikinn og breyta nokkrum smáatriðum sem á endanum hjálpaði okkur í gegnum leikinn og gerði hlutina erfiðari fyrir þá og fundum síðan nægilega margar lausnir sóknarlega. Að ná að koma með stóru körfurnar á réttum tímapunktum, það er lykilatriði líka auðvitað."

Í þriðja leikhluta nær Njarðvík 8 stiga forskoti sem Álftanes jafnar síðan á tælega tveimur og hálfri mínútu í fjórða leikhluta. Komast síðan yfir og þá hélt maður að leikurinn væri jafnvel tapaður fyrir Njarðvík.

„Okkur líður vel í þriðja leikhluta og náum að keyra í bakið á þeim, fáum þessi fínu sniðskot. Búum okkur til þessa forystu. Síðan kemur þetta hikst sem skapast af því að við þurftum að gefa mönnum pásur og þá fór sóknarleikurinn okkar í aðra átt og erfiðari áttir. Álftanes er bara það gott lið að það refsar þér um leið þegar þú gerir erfiðar breytingar.

Það sem ég er bara mest ánægður með er það sem við höfum talað um. Það er að góð körfuboltalið eru andlega sterk og við héldum haus þrátt fyrir að þeir hafi jafnað og komist yfir. Við fórum ekki í neitt panikk og fara út fyrir það sem við höfum lagt áherslu á heldur héldum við bara áfram og fórum enn meira í það sem við höfum lagt mesta áherslu á og það virkaði. Ég er gríðarlega ánægður með það."

Það sást samt að þegar Khalil Shabazz og Dwayne Lautier - Ogunleye voru hvíldir að þá fór sóknarleikurinn úr skorðum. Er það eitthvað sem þú átt svör við fyrir næstu leiki?

„Heilt yfir getum við búið til fleiri auðveld skot. Álftanes vörnin er klók og reynslumiklir leikmenn sem voru að gera okkur erfitt fyrir. Við þurfum samt að opna betur fyrir Milka og tengja Mario betur. Þessir tveir stórkostlegu leikmenn sem þú nefnir skoruðu báðir 30 plús stig í kvöld. Það verður ekkert alltaf þannig þó þeir geti það.

Við þurfum bara fimm manna lið þar sem allir skila sínu og taka ábyrgð. Við höldum áfram að vinna í þessum atriðum en það kæmi mér ekkert á óvart þó við þyrftum að bæta aðeins við til að fá meiri dýpt í skorið hjá okkur.

Ég er með þrjá leikmenn sem voru á bekknum í dag. Þeir skora eitt stig saman en þeir eru líka að koma inn og skila öðrum hlutverkum sem þeir gerðu mjög vel. Við þurfum samt meiri fjölbreytileika í skorunina til að gera okkur að betra liði."

Super Mario kemur með alvöru troðslu í lokin. Myndir þú segja að þessi troðsla frá Super Mario hafi verið náðarhöggið í leiknum?

„Já það er bara svoleiðis. Að fá svona moment í þessum leik þar sem hann treður hérna reverse og það bilast allt í höllinni. Ég hoppaði í hring af ánægju og orkan í höllinni á þeim tíma var frábær. Þetta er eitthvað sem við ætlum að reyna búa til eins oft og við getum í vetur."

Hversu mikilvægt var það fyrir Njarðvík að vinna fyrsta leikinn í nýju höllinni?

„Ég er búinn að vera tala þetta niður fyrir leik og þóttist vera pollrólegur fyrir leik. Ég viðurkenni það samt að þetta er búið að liggja á mér síðustu vikuna að ég ætla ekki að vera þjálfarinn sem tapaði fyrsta leiknum í húsinu og eyðileggja þetta kvöld. Það var rosalega mikilvægt. Auðvitað skipti það ekkert öllu fyrir okkur í deildinni en bara fyrir okkur sem félag og þetta kvöld þá er þetta bara kirsuberið ofan á kökuna," sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert