Vonast til að snúa fljótlega aftur

Kristófer Acox, fyrirliði Vals.
Kristófer Acox, fyrirliði Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Acox, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í körfuknattleik, hyggur á endurkomu á völlinn von bráðar eftir að hann meiddist illa á hné í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn gegn Grindavík í lok maí síðastliðins.

Hann fór raunar í aðgerð á báðum hnjám en er allur að koma til.

„Þetta gengur vel en það er erfiðast að halda hausnum. Vonandi verð ég kominn til baka í nóvember eða desember. Ég er byrjaður að hoppa aðeins og byrjaður að drilla með mínum besta manni Jamil [Abiad aðstoðarþjálfara Vals],“ sagði Kristófer í sjónvarpsþættinum Körfuboltakvöldi Extra á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.

Hann reiknar með því að vera kominn á fullt í byrjun næsta árs.

„Ég er síðan ekki búinn að segja sjúkraþjálfaranum það að ég er byrjaður að skokka smá. Ég er reyndar að fara í frí til Tene eftir tvær vikur og mun ekki gera mikið þar. En ég verð farinn að gera slatta í nóvember eða desember og vonandi alveg klár í janúar,“ sagði Kristófer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert