Grindavík með fullt hús eftir stórsigur á Hetti

Devon Thomas, leikmaður Grindavíkur, sækir að körfunni í leiknum í …
Devon Thomas, leikmaður Grindavíkur, sækir að körfunni í leiknum í kvöld. Adam Andersen reynir að verjast. mbl.is/Arnþór

Grindavík vann stórsigur á Hetti í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í Smáranum í kvöld, 113:84. Grindvíkingar lögðu grunninn af sigrinum strax í fyrsta leikhluta og eftir það var ekki aftur snúið.

Grindvíkingar byrjuðu af gífurlegum krafti á meðan skotnýting Hattarmanna var algjörlega afleit. Ákafi Grindvíkinga varnarlega gerði gestunum erfitt fyrir og voru þeir í vandræðum með að komast í góð færi. Staðan þegar átta mínútur voru liðnar var 26:4 og höfðu öll stig gestanna komið af vítalínunni.

Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 31:9 en Adam Andersen skoraði fyrstu stig gestanna utan af velli með flautukörfu í fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta skánaði sóknarleikur Hattar aðeins en ekki nóg þó, þar sem Grindvíkingar héldu áfram að spila flottan sóknarbolta með Devon Thomas fremstan í flokki. Staðan í hálfleik var 56:33, heimamönnum í vil, en Thomas var þá með 21 stig og fjórar stoðsendingar.

Í hálfleik sauð svo allt uppúr. Liðin voru búin að fara inn til búningsherbergja og komin út á völl aftur að hita upp þegar eitthvað gerist á milli Deandre Kane, leikmanns Grindavíkur og Courvoisier McCauley, leikmanns Hattar. Við það verður allt vitlaust og allir leikmenn beggja liða hópast í átt að miðjuhringnum og úr verða mikla stimpingar. Gæslan í Smáranum og ritaraborðið björguðu því sem bjargað varð og þegar dómararnir komu aftur út til vallar var málið leyst með tæknivillu á bæði Kane og McCauley.

Grindvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri, af miklum krafti. Áður en langt var liðið var munurinn kominn yfir 30 stig og Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, tók leikhlé þegar þriðji leikhluti var hálfnaður og staðan 75:41.

Hattarmenn enduðu þriðja leikhluta ágætlega og komu muninum niður í 28 stig, 81:53 en mest var munurinn orðinn 38 stig. Allir byrjunarliðsmenn Grindavíkur fengu þó góða hvíld til skiptis í þriðja leikhluta svo það var kannski viðbúið að Hattarmenn myndu aðeins sækja á.

Fjórði leikhluti bar þess merki að munurinn væri of mikill til að gestirnir gætu komið til baka. Grindvíkingar gerðu nóg til þess að gefa þeim aldrei neina alvöru von og Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari liðsins, náði á sama tíma að rúlla vel á liðinu. Að lokum sigldu Grindvíkingar þægilegum sigri í höfn, 113:84.

Devon Thomas endaði sem stigahæsti og besti leikmaður vallarins. Hann skoraði 38 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Valur Orri Valsson kom næstur í liði Grindavíkur með 14 stig og 6 stoðsendingar.

Hjá Hetti var Adam Andersen stigahæstur með 21 stig en Nemanja Knezevic kom næstur með 16 stig

Grindvíkingar eru því með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir á meðan Höttur er með fjögur stig eftir jafn marga leiki.

Grindavík - Höttur 113:84

Smárinn, Bónus deild karla, 17. október 2024.

Gangur leiksins:: 9:0, 18:3, 24:3, 31:9, 35:14, 41:20, 47:24, 56:33, 65:36, 75:41, 81:43, 81:53, 91:68, 97:70, 105:80, 113:84.

Grindavík: Devon Tomas 38/6 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 14/6 stoðsendingar, Daniel Mortensen 13/7 fráköst/5 varin skot, Deandre Donte Kane 11/8 fráköst/8 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 9, Jason Tyler Gigliotti 9/7 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 7, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 4, Nökkvi Már Nökkvason 3.

Fráköst: 34 í vörn, 10 í sókn.

Höttur: Adam Heede-Andersen 21, Nemanja Knezevic 16/7 fráköst, Courvoisier McCauley 14/6 fráköst, Obadiah Nelson Trotter 9, Gustav Suhr-Jessen 8, Adam Eiður Ásgeirsson 5, Eysteinn Bjarni Ævarsson 4, Óliver Árni Ólafsson 4, David Guardia Ramos 3/4 fráköst.

Fráköst: 15 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Bjarni Rúnar Lárusson.

Áhorfendur: 282

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grindavík 113:84 Höttur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert