Ótrúlegt atvik átti sér stað í hálfleik í leik Grindavíkur og Hattar í 3. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Smáranum í kvöld.
DeAndre Kane, leikmanni Grindavíkur, og Courvoiser McCauley, leikmanni Hattar, lenti þá saman og við það varð allt vitlaust.
„Hér er allt að sjóða upp úr þegar menn eru að hita upp í hálfleiknum!“ skrifaði íþróttablaðamaðurinn Aron Elvar Finnsson í textalýsingu sína af leiknum en hann er í beinni lýsingu á mbl.is.
„DeAndre Kane og Courvoisier McCauley virðast hafa byrjað þetta og úr því verða nánast hópslagsmál. Það eru allir leikmenn beggja liða komnir að miðjuhringnum og gæslan kemur á endahraða inn á völlinn til að reyna að róa menn niður.
Dómararnir koma svo algjörlega af fjöllum þegar þeir mæta aftur út í sal,“ skrifaði Aron Elvar en þeir fengu báðir tæknivillu vegna atviksins.