Hittum lítið í fjórða leikhluta

Pétur Ingvarsson á hliðarlínunni í kvöld.
Pétur Ingvarsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Pétur Ingvarsson þjálfari bikarmeistara Keflavíkur í körfubolta var að vonum svekktur með eins stigs tap gegn nágrannaliðinu Njarðvík í kvöld.

Spurður að því hvað það hafi verið sem varð þess valdandi að Keflavík tapaði eftir að hafa leitt megnið af leiknum sagði Pétur þetta:

„Við hittum mjög lítið í fjórða leikhluta og það var svolítið vendipunkturinn í þessu. Við vorum 11 stigum yfir þegar við förum inn í fjórða leikhluta og þeir vinna með 12 stigum. Það er auðvitað ekki gott.“

Leikur Keflavíkur var mjög sveiflukenndur í kvöld. Þegar ég segi það þá á ég við að Keflavík byrjar fyrsta leikhluta frekar illa en vinnur hann með 5 stigum. Njarðvík kemst yfir í öðrum leikhluta áður en þið setjið niður 12 stig og leiðið með 10 stigum í hálfleik. Síðan nær Keflavík mest 17 stiga forskoti í þriðja leikhluta en enda hann með 11 stiga forskoti og tapa síðan fjórða leikhluta með 12 stigum og leiknum með einu stigi. Kanntu skýringar á þessu?

„Já þetta eru alveg sveiflur. Við hittum bara ekki vel í fjórða leikhluta. Við skorum 88 stig en viljum skora amk 108. Það vantaði því 20 stig í kvöld hjá okkur. Varnarlega erum við allt í lagi, að fá á okkur 89 stig. Þannig að þetta er alltof lítið skor hjá okkur,“ sagði hann.

Þannig að léleg hitni og lítið skor í leiknum er ástæðan fyrir tapinu í kvöld?

„Ef við hittum ekki neitt þá náum við ekki að keyra leikinn upp og svona lið eins og Njarðvík sem er kannski meira á hálfum velli, það græðir á því,“ sagði Pétur.

Áhorfslega séð leit þessi leikur þannig út að Keflavík væri alltaf að byrja þessa yfirkeyrslu sem þið voruð þekktir fyrir á síðustu leiktíð en það fór aldrei alla leið hjá ykkur. Kanntu einhverjar skýringar á því afhverju það vantaði alltaf aðeins upp á þetta?

„Við skorum einungis 12 stig í fjórða leikhluta og okkur vantaði okkar besta varnarmann og líklega besta varnarmann deildarinnar á tímabili og eftir það fór þetta bara svolítið suður. Þetta eru bara margir litlir hlutir sem verða til þess að við náum ekki að klára þetta,“ sagði hann.

Nú eru þrír leikir búnir og Keflavík búnir að vinna einn. Hefur þú áhyggjur í ljósi þess að Keflavík ætlar væntanlega að vinna alla þá titla sem í boðir eru í vetur?

„Það eru 19 leikir eftir og ef við náum að vinna 20 og tapa tveimur þá erum við í góðum málum en eins og staðan er núna þá lítur það ekki þannig út.

Ef á einhverjum tímapunkti við sjáum fram á að við náum ekki að vinna deildarmeistaratitilinn þá segjum við að hann sé einskis virði. Það er bara ekki flóknara en það“ sagði Pétur hlæjandi og hélt svo áfram: 

„Þá er það bara Íslandsmeistaratitilinn sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert