Pavel falsaði skilaboð frá „áhrifamönnum“

Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleikshetjan Pavel Ermolinskij falsaði skilaboð frá „áhrifamönnum“ innan fótboltans til að auglýsa nýja hlaðvarpið sitt. 

Pavel byrjaði á dögunum með nýtt hlaðvarp sem kallast Gazið en þar fer hann yfir víðan völl. Meðal annars ræddi hann draum sinn um úrslitakeppni í fótbolta. 

Til að auglýsa þáttinn ákvað Pavel að falsa skilaboð frá aðilum innan fótboltaheimsins og birti þau á X, áður Twitter. 

Þar var honum hótað en í fyrri skilaboðunum stóð:

„Sæll Pavel, ég vil ítreka beiðni okkar um að þú endurskoðir þá ákvörðun þína um að birta þennan þátt. Eins og ég kom inn á í morgun þá mun teymið okkar bregðast strax við og það af hörku. 

Ef þetta snýr að peningum þá hef ég umboð fyrir því að taka það samtal lengra og sjá hvort við getum ekki samið.“

Hélt að grínið væri augljóst

Pavel birti síðan önnur skilaboð þar sem stóð:

„Þú þarna körfuboltasteikin þín, ekki halda í eina sekúndu að þú sért að fara að breyta einu né neinu. Ekki gera þig að fífli með þessu.“

Pavel leiðrétti þetta nokkru síðar og eyddi skilaboðunum. Pavel taldi grínið vera augljóst. 

„Það er enginn svona brjálaður yfir úrslitakeppni í fótbolta vona ég,“ bætti Pavel við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert