46 stiga munur í Hveragerði

Alexis Morris fór mikinn fyrir Grindavík.
Alexis Morris fór mikinn fyrir Grindavík. Ljósmynd/Egill Bjarni

Alexis Morris var stigahæst hjá Grindavík þegar liðið vann stórsigur gegn nýliðum Hamars/Þórs í 4. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Hveragerði í kvöld.

Leiknum lauk með 46 stiga sigri Grindavíkur, 97:51, en Morris skoraði  21 stig, tók fimm fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Grindavík fer með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í 4 stig en liðið hefur unnið tvo leiki og tapað tveimur í fyrstu fjórum umferðunum. Hamar/Þór er í 5. sætinu, einnig með 4 stig, en liðið hafði unnið tvo leiki í röð fyrir leik kvöldsins, gegn Aþenu og Þór frá Akureyri.

Grindavík byrjaði leikinn mikið mun betur og tókst nýliðunum aðeins að skora 9 stig gegn 24 stigum Grindavíkur í fyrsta leikhluta. Það sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta þar sem Grindavík skoraði 27 stig gegn 11 stigum Hamars/Þórs og var staðan 51:20, Grindavík í vil, í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var lítt spennandi en Grindavík byrjaði hann af krafti líkt og þann fyrri. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 77:34, Grindavík í vil, og Grindvíkingar sigldu sigrinum auðveldlega í höfn í fjórða leikhluta.

Hulda Björk Ólafsdóttir var atkvæðamikil hjá Grindavík með 17 stig og fimm fráköst en Abby Beeman var stigahæst hjá Hamri/Þór með 20 stig og sex fráköst.

Hamar/Þór - Grindavík 51:97

Hveragerði, Bónus deild kvenna, 22. október 2024.

Gangur leiksins:: 7:6, 7:10, 7:15, 9:24, 12:29, 18:34, 20:45, 20:51, 26:56, 29:64, 30:72, 34:77, 37:79, 43:85, 44:91, 51:97.

Hamar/Þór: Abby Claire Beeman 20/6 fráköst/5 stolnir, Anna Soffía Lárusdóttir 8/5 fráköst, Matilda Sóldís Svan Hjördísardóttir 7, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 6, Teresa Sonia Da Silva 4, Gígja Rut Gautadóttir 3, Helga María Janusdóttir 2, Bergdís Anna Magnúsdóttir 1/5 fráköst.

Fráköst: 21 í vörn, 5 í sókn.

Grindavík: Alexis Morris 21/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hulda Björk Ólafsdóttir 17/5 fráköst, Sofie Tryggedsson Preetzmann 14/11 fráköst/7 stoðsendingar, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10/14 fráköst, Katarzyna Anna Trzeciak 10/6 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 9/6 fráköst, Þórey Tea Þorleifsdóttir 8, Sóllilja Bjarnadóttir 3, Birgit Ósk Snorradóttir 2/4 fráköst, Ragnheiður Björk Einarsdóttir 2/6 fráköst, Hjörtfrídur Óðinsdóttir 1.

Fráköst: 40 í vörn, 19 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Birgir Örn Hjörvarsson, Daníel Steingrímsson.

Áhorfendur: 110

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert