Enginn Jack Grealish í NBA

Jayson Tatum og Jaylen Brown stefna á meistaratitilinn eru í …
Jayson Tatum og Jaylen Brown stefna á meistaratitilinn eru í stórum hlutverkum hjá meistaraliði Boston Celtics. AFP/Nick Cammet

Eftir afdrifaríkt sumar þar sem landslið Bandaríkjanna vann gullverðlaunin á Ólympíuleikunum í París, geta stjörnuleikmennirnir í NBA nú einbeitt sér að nýju að aðalstarfi sínu – að verðskulda 50 milljóna dala árslaunin.

Keppnin í deildinni hefst í kvöld með leik erkifjendanna New York Knicks og meistaranna Boston Celtics, en síðarnefnda liðið er talið líklegt til að verja titilinn, ef marka má spár NBA sérfræðinga og framkvæmdastjóra liðanna.  Sá leikur hefst klukkan 23.30 að íslenskum tíma en klukkan tvö í nótt hefst viðureign Los Angeles Lakers og Minnesota Timberwolves.

Eins og bent hefur verið á í þessum pistlum í gegnum árin, reyna reglur stærstu íþróttadeilda hér vestra mun meira á hæfni framkvæmdastjóra liðanna. Þeir sjá um leikmannahópinn og breyta honum eftir því hvernig leiktímabilið þróast – sérstaklega með tilliti til launaþaks liðanna sem jafnar út styrkleika þeirra til langframa.

Ólíkt knattspyrnudeildum í Evrópu geta þessir framkvæmdastjórar ekki einfaldlega tekið fram budduna og keypt stjörnuleikmenn til að fylla í skörðin – eða halda þeim frá öðrum liðum. 

Það er enginn Jack Grealish í NBA-deildinni sem vermir varamannabekkinn!

Mismunandi leiðir

Ef litið er yfir sögu NBA-deildarinnar kemur í ljós að þau lið sem unnið hafa titilinn oftast hafa venjulega sterka innviði í stjórnun þar sem eigendur gefa hæfum framkvæmdastjórum tíma og peninga til að byggja upp sterka leikmannahópa.

Það á við meistara Boston Celtics, en þar á bæ er Brad Stevens framkvæmdastjóri, en hann var áður þjálfari liðsins. Stevens hefur sýnt í gegnum árin að hann er lunkinn í að finna réttu leikmennina til að leika saman, en of margir eigendur og framkvæmdastjórar hafa fallið fyrir þeim hugsunarhætti að engin leið sé að vinna titilinn án þess að hafa þrjá stjörnuleikmenn í byrjunarliðinu.

Það hefur oft leitt til þess að stór hluti af launagreiðslum liðanna fer til þessara þriggja leikmanna og þá er oft minna til staðar til að laða að leikmenn sem nauðsynlegir er til að fylla skörðin (til dæmis LA Lakers, Phoenix, og Philadelphia).

Stevens hefur hægt og sígandi byggt upp leikmannahóp Celtics á undanförnum árum og það sýndi sig á síðasta keppnistímabili þegar liðið vann 64 leiki í deildakeppninni og tapaði aldrei meira en einum leik í rimmum sínum í úrslitakeppninni.

Leikmannahópurinn kemur meira og minna óbreyttur til leiks og hann er vel til búinn að verja titilinn, en engu liði hefur tekist það síðan 2018. Allir bestu leikmenn liðsins eru nú með samninga sem gilda að minnsta kosti næstu tvö árin.

Ekki vanmeta Milwaukee

Það er ekki auðvelt að verja titilinn í NBA-deildinni.

Leikmenn fórna oft einstaklingsárangri fyrir liðið og það er því undir þjálfurum komið að hvetja menn til að gera það að nýju.

„Leikmenn okkar skilja að það er skotleyfi á þá,” sagði Stevens fyrir nokkrum dögum. „Þeir skilja vel hvernig að mannlegt eðli getur komið í veg fyrir það hungur sem þarf til að verja titlinn. Þeir skilja að þetta verður erfitt – alla deildakeppnina. Þeir hafa farið í gegnum þetta, þannig að ég er ekki hræddur um okkar leikmenn.”

Með þá Jaylen Brown og Jayson Tatum í broddi fylkingar verður erfitt að veðja gegn því að Celtics nái að verja titilinn, en sagan hefur sýnt að margt getur gerst á næstu átta mánuðum. 

Giannis Antetokounmpo er einn besti leikmaður deildarinnar og fer fyrir …
Giannis Antetokounmpo er einn besti leikmaður deildarinnar og fer fyrir liði Milwaukee Bucks. AFP/Stacy Revers

Helstu andstæðingar Boston í Austurdeildinni verða sjálfsagt Milwaukee Bucks, Philadelphia 76ers, Miami Heat og New York Knicks, en forráðamenn Knicks náðu í miðherjann Karl Anthony Thomas frá Minnesota í stórum leikmannaskiptum um daginn.

Af þessum liðum hefur undirritaður mesta trú á Milwaukee, en næsta víst er at Giannis Antetokounmpo er hungraður í annan meistaratitil og Damien Lillard mun einnig vilja sína sitt eftir leikmannaskiptin í fyrra frá Portland.

Það er hins vegar erfitt að sjá þessi lið slá út Celtics í úrslitarimmu eins og staðan er nú.

Oklahoma!

Oklahoma! var frægur söngleikur á sjötta áratugnum um farandkúreka sem reyndu að syngja sig inn í hjörtu ungra kvenna á sléttum fylkisins þegar menn gengu um með byssur í beltum.

Rétt eins og kúrekarnir í söngleiknum, er lið Oklahoma City Thunder með ungan og hungraðan leikmannahóp sem framkvæmdastjóri liðsins hefur hægt og sígandi byggt upp í gegnum háskólavalið og leikmannaskipti.

Það hefur hins vegar oft verið erfitt fyrir Thunder að halda í suma stjörnuleikmenn þar sem margir af þeim líta á Oklahoma City sem sveitabæ þar sem lítið er um að vera.

Shai Gilgeous-Alexander fer fyrir liði Oklahoma City Thunder.
Shai Gilgeous-Alexander fer fyrir liði Oklahoma City Thunder. AFP/Joshua Gateley

Þessi leikmannahópur er talinn af mörgum NBA sérfræðingum hér vestra sem sá sigurstranglegasti í Vesturdeildinni, en keppnin vestan megin virðist ætla að einkennast af óreiðu þar sem fæstir sérfræðingar virðast á sama máli um hvaða lið muni verða best á endanum.

Undirritaður er ekki svo viss um að liðin sem voru í toppbaráttunni í Vesturdeildinni á síðasta keppnistímabili séu tilbúin að láta einhver unglömb troða yfir sig í toppsætið. Dallas Mavericks, Denver Nuggets og Minnesota Timberwolves munu öll enn og aftur verða í toppbaráttunni, og Thunder-liðið gæti verið einu til tveimur árum frá því að komast í lokaúrslitin.

Dallas enn hættulegt

Framkvæmdastjóri Thunder brást við tapinu gegn Dallas í lokarimmu Vesturdeildarinnar á síðasta keppnistímabili með því að ná í skyttuna Alex Caruso frá Chicago og miðherjann Isaiah Hartenstein frá New York. Stjörnuleikmaðurinn Shai Gilgeous-Alexander og miðherjinn Chet Holmgren verða áfram lykilmenn hjá Thunder.

Þessir nýju leikmenn loka einu veikleikum liðsins sem ollu tapinu gegn Dallas í úrslitakeppninni í vor – varnarfráköstum og þriggja stiga skotum.

Luka Doncic hefur verið gríðarlega öflugur með Dallas Mavericks.
Luka Doncic hefur verið gríðarlega öflugur með Dallas Mavericks. AFP/Stacy Revere

Dallas - með Luka Doncic og Kyrie Irving sem stjörnuleikmenn, og Klay Thompson sem nýja manninn frá Golden State - virðist eiga möguleika á að endurtaka frammistöðuna frá síðasta keppnistímabili. Boston opinberaði reyndar veikleika Mavericks í Lokaúrslitunum þegar varnarleikur Boston hreinlega bauð öðrum leikmönnum en Doncic og Irving að skjóta. Þeir leikmenn voru með afleita hittni sem leiddi til ósigursins gegn Celtics. Dallas verður enn þó hættulegur mótherji hvaða liði sem er.

Einum slæmum meiðslum frá titli

Denver Nuggets er einnig með sterkan leikmannahóp – þar á meðal besta leikmanninn í heiminum, Nikola Jokic – en manni finnst eins og að liðið sé ávallt einum slæmum meiðslum lykilmanns frá því að vinna titilinn að nýju. Liðið var nálægt því að komast í úrslitarimmu Vesturdeildarinnar á síðasta keppnistímabili, en tíminn á eftir að leiða í ljós hvort það var bara óheppni eða merki um veikleika.

Öll þessi þrjú lið gætu þess vegna unnið meistaratitilinn, en ólíklegt er að önnur lið vestan megin muni geta ógnað þessum liðum á toppnum.

Nikola Jokic og félaga í Denver Nuggets hefur vantað herslumuninn.
Nikola Jokic og félaga í Denver Nuggets hefur vantað herslumuninn. AFP/Matthew Stockman

Minnesota og Phoenix Suns munu eflaust reyna að gera atlögu að toppnum, en erfitt er að sjá þau slá tvö til þrjú af toppliðunum út í úrslitakeppninni.

Það Vesturdeildarlið sem síðan kemst í lokaúrslitin næsta sumar á þá væntanlega eftir að eiga við Boston Celtics, sem stefnir á nítjánda meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert