Fyrsti sigur Álftnesinga kom í Vesturbæ

David Okeke skoraði 20 stig fyrir Álftanes í kvöld.
David Okeke skoraði 20 stig fyrir Álftanes í kvöld. mbl.is/Arnþór

Álftanes vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu þegar liðið hafði betur gegn nýliðum KR, 84:72, í fjórðu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Vesturbæ í kvöld.

KR-ingar hafa unnið tvo af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni.

Álftanes byrjaði leikinn betur og var sjö stigum yfir, 24:17, að loknum fyrsta leikhluta. KR lagaði stöðuna töluvert í öðrum leikhluta og munurinn var aðeins tvö stig, 43:41, í hálfleik.

Áfram var jafnræði með liðunum í þriðja leikhluta en í þeim fjórða og síðasta reyndust gestirnir af Álftanesi sterkari og unnu sterkan 12 stiga sigur.

Álftnesingar skiptu stigunum bróðurlega á milli sín en David Okeke var stigahæstur með 20 stig og sjö fráköst, Andrew Jones var með 18 stig, Dimitrios Klonaras var með 17 stig og sex fráköst og Haukur Helgi Briem Pálsson skoraði 16 stig og tók sex fráköst.

Stigahæstur í leiknum var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 21 stig fyrir KR auk þess sem hann tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Linards Jaunzems bætti við 19 stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka