Nýliðarnir enn án stiga

Marreon Jackson skoraði 24 stig fyrir Þór.
Marreon Jackson skoraði 24 stig fyrir Þór. mbl.is/Eyþór

Þór frá Þorlákshöfn gerði góða ferð í Skógarselið í Breiðholti og lagði ÍR að velli, 84:73, í fjórðu umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld.

Þór hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum en ÍR er enn án stiga eftir að hafa tapað öllum leikjum sínum til þessa.

Heimamenn í ÍR voru með undirtökin í fyrri hálfleik enda átta stigum yfir, 33:41, að honum loknum.

Þórsarar sneru hins vegar taflinu við svo um munaði í síðari hálfleik. Staðan var orðin 63:58 að loknum þriðja leikhluta og gestirnir úr Þorlákshöfn hófu svo fjórða og síðasta leikhluta á því að skora fyrstu níu stig hans.

Munurinn var því orðinn 14 stig í stöðunni 72:58. Eftir það var ekki aftur snúið og Þór sigldi að lokum þægilegum 11 stiga sigri í höfn.

Marreon Jackson var stigahæstur í leiknum með 24 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar fyrir Þór. Jordan Semple bætti við 20 stigum og tólf fráköstum.

Matej Kavas var stigahæstur hjá ÍR með 21 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka