„Ég hef eytt mjög miklum tíma í bíl,“ sagði körfuknattleikskonan fyrrverandi Dagný Lísa Davíðsdóttir í Dagmálum.
Dagný Lísa, sem er 27 ára gömul, lagði skóna óvænt á hilluna í sumar en hún var meðal annars valin besti leikmaður úrvalsdeildarinnar tímabilið 2021-22.
Dagný Lísa hefur alla tíð verið búsett í Hveragerði en hún hefur leikið með Fjölni og Grindavík, ásamt Hamri, á ferlinum.
„Þetta er það eina við Hveragerði, það tekur aðeins lengri tíma að komast á milli staða,“ sagði Dagný Lísa.
„Margir af liðsfélögum mínum í gegnum tíðina hafa oft verið að koma heim af æfingum sjö mínútum síðar og ég vildi stundum óska að það væri þannig hjá mér líka,“ sagði Dagný Lísa meðal annars.