Jón var drjúgur og sigurgangan heldur áfram

Jón Axel Guðmundsson lék vel með San Pablo Burgos.
Jón Axel Guðmundsson lék vel með San Pablo Burgos. Ljósmynd/FIBA

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, nýtti mínúturnar vel í leik sínum með San Pablo Burgos gegn Oviedo í spænsku B-deildinni í gærkvöld.

Jón Axel lék í 19 mínútur og hann skoraði 11 stig, tók fjögur fráköst og átti þrjár stoðsendingar en San Pablo vann leikinn 79:69 á sínum heimavelli.

Sigurganga San Pablo heldur því áfram en liðið er á toppnum og eina taplausa liðið í deildinni með fimm sigra í fimm fyrstu leikjunum.

Elvar Már Friðriksson, samherji Jóns í íslenska landsliðinu, átti erfiðara kvöld í grísku úrvalsdeildinni þegar lið hans, Maroussi, tapaði fyrir Panionios á útivelli, 86:62. Elvar lék í 21 mínútu, skoraði 5 stig, átti 6 stoðsendingar og tók eitt frákast.

Maroussi hefur tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu og er í níunda sæti af tólf liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert