Phoenix fyrst til að leggja Lakers

Kevin Durant átti stórleik fyrir Phoenix Suns í nótt.
Kevin Durant átti stórleik fyrir Phoenix Suns í nótt. AFP/Christian Petersen

Phoenix Suns varð í nótt fyrsta liðið sem vinnur LA Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik á nýhöfnu tímabili. Phoenix hafði betur á heimavelli, 109:105, eftir hörkuleik.

Bæði lið hafa nú unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum.

Stjörnur Phoenix voru í essinu sínu þar sem Devin Booker skoraði 33 stig og Kevin Durant bætti við 30 stigum, átta fráköstum og fjórum vörðum boltum.

Hjá Lakers var Anthony Davis stigahæstur með 29 stig, 15 fráköst og þrjá varða bolta. Austin Reaves var þá með 23 stig og átta fráköst.

Fullkomin byrjun Boston

NBA-meistarar Boston Celtics unnu nokkuð þægilegan sigur á Milwaukee Bucks, 119:108.

Meistararnir byrja tímabilið afskaplega vel og hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína. Milwaukee hefur á meðan aðeins unnið einn leik.

Í nótt skoraði Jaylen Brown 30 stig fyrir Boston og tók sex fráköst. Jrue Holiday bætti við 21 stigi.

Hjá Milwaukee var Damian Lillard stigahæstur með 33 stig, sjö fráköst og sjö stoðsendingar. Giannis Antetokounmpo var skammt undan með 30 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

Phoenix – LA Lakers 109:105

Boston – Milwaukee 119:108

Dallas – Utah 110:102

Memphis – Chicago 123:126

Toronto – Denver (frl.) 125:127

San Antonio – Houston 101:106

Sacramento – Portland 111:98

Orlando – Indiana 119:115

Atlanta – Washington 119:121

Miami – Detroit 106:98

New York – Cleveland 104:110

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert