Fékk loks grænt ljós á að spila

Christian Koloko.
Christian Koloko. AFP/Adam Pantozzi

Kamerúninn Christian Koloko, miðherji LA Lakers í NBA-deildinni í körfuknattleik, hefur fengið grænt ljós á að snúa aftur á völlinn, 18 mánuðum eftir að hann spilaði síðast.

Koloko, sem er 24 ára gamall og 213 sentimetrar á hæð, greindist með blóðtappa síðasta sumar og missti af þeim sökum af öllu síðasta tímabili.

Læknar voru búnir að gefa honum grænt ljós á að snúa aftur í september síðastliðnum en þurfti Koloko að bíða eftir því að NBA-deildin samþykkti endurkomu hans, sem nefnd á vegum deildarinnar hefur nú gert.

Því má Koloko hefja æfingar með Lakers og getur spilað með liðinu þegar hann er reiðubúinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert