Jókerinn í essinu sínu

Nikola Jokic er engum líkur.
Nikola Jokic er engum líkur. AFP/Michelle Farsi

Serbinn Nikola Jokic, Jókerinn, var með þrefalda tvennu þegar lið hans Denver Nuggets vann annan sigur sinn í fjórða leiknum á tímabilinu með því að leggja Brooklyn Nets að velli, 144:139, í framlengdum leik í NBA-deildinni í körfuknattleik í New York í nótt.

Jokic var stigahæstur í leiknum með 29 stig og tók auk þess 18 fráköst og gaf 16 stoðsendingar.

Liðsfélagar hans Jamal Murray og Aaron Gordon bættu við 24 stigum hvor og Russell Westbrook var með 22 stig.

Hjá Brooklyn var Þjóðverjinn Dennis Schröder atkvæðamestur með 28 stig og 14 stoðsendingar. Cam Thomas bætti við 26 stigum.

Dallas á sigurbraut

Dallas Mavericks vann þriðja sigur sinn á tímabilinu er liðið heimsótti Minnesota Timberwolves og vann 120:114.

Kyrie Irving var í miklu stuði og skoraði 35 stig fyrir Dallas. Slóveninn Luka Doncic lék sömuleiðis vel en hann skoraði 24 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Hjá Minnesota fór Anthony Edwards á kostum er hann skoraði 37 stig og tók sex fráköst. Julius Randle var með 20 stig.

Úrslit næturinnar:

Brooklyn – Denver (frl.) 139:144
Minnesota – Dallas 114:120
Utah – Sacramento 96:113
Golden State – New Orleans 124:106

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert