Spænska liðið Bilbao vann öruggan útisigur á Balkan Botevgrad frá Búlgaríu í Evrópubikar karla í körfubolta í kvöld.
Landsliðsmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason lék mjög vel með Bilbao, skoraði níu stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar á aðeins 19 mínútum.
Tryggvi og félagar eru með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í J-riðli og á góðri leið með að fara í útsláttarkeppnina.
Elvar Már Friðriksson og samherjar hans hjá Maroussi frá Grikklandi máttu hins vegar þola tap gegn Norrköping frá Svíþjóð, 74:71. Elvar skoraði 13 stig, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar á 32. mínútum.
Maroussi er í öðru sæti G-riðils með tvo sigra og tvö töp.