Bronny skoraði sín fyrstu stig

Bronny og LeBron James.
Bronny og LeBron James. AFP/Christian Petersen

Bronny James, sonur goðsagnarinnar LeBron James, skoraði sín fyrstu stig í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar lið þeirra feðga LA Lakers tapaði fyrir Cleveland Cavaliers, 134:110, í nótt.

Bronny lék í fimm mínútur og skoraði tvö stig en faðir hans LeBron var stigahæstur í leiknum með 26 stig auk þess sem hann tók sex fráköst. Anthony Davis bætti við 22 stigum og 13 fráköstum.

Stigahæstur hjá Cleveland var Ethan Mobley með 25 stig, Donovan Mitchell bætti við 24 stigum og sjö stoðsendingum og Jarrett Allen var með 20 stig og 17 fráköst.

Cleveland hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu enda búið að vinna fyrstu fimm leiki sína. Lakers hefur unnið þrjá af fyrstu fimm leikjum sínum eftir tvö töp á útivöllum í röð.

Fyrsta tap meistaranna

NBA-meistarar Boston Celtics máttu sætta sig við sitt fyrsta tap á tímabilinu þegar liðið laut í lægra haldi gegn Indiana Pacers, 135:132, eftir framlengdan leik. Indiana vann annan sigur sinn á tímabilinu og þann fyrsta á heimavelli.

Bennedict Mathurin fór fyrir Indiana er hann skoraði 30 stig og tók 11 fráköst. Pascal Siakam var skammt undan með 29 stig og 11 fráköst.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Jayson Tatum með 37 stig fyrir Boston. Tók hann auk þess átta fráköst og stal fjórum boltum.

Jaylen Brown skoraði 25 stig og tók sex fráköst og Derrick White var með 23 stig.

Úrslit næturinnar:

Cleveland – LA Lakers 134:110

Indiana – Boston (frl.) 135:132

Charlotte – Toronto 138:133

Philadelphia – Detroit 95:105

Washington – Atlanta 133:120

Miami – New York 107:116

Chicago – Orlando 102:99

Memphis – Brooklyn 106:119

Oklahoma City – San Antonio 105:93

Golden State – New Orleans 104:89

LA Clippers – Portland 105:106

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka