Kannski undir mínum væntingum

Jakob Örn Sigurðarson
Jakob Örn Sigurðarson Eggert Jóhannesson

Jakob Örn Sigurðarson þjálfari KR var svekktur með 94:88 tap gegn Keflavík í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. KR er nú búið að tapa tveimur leikjum í röð og á næst leik gegn Njarðvík á heimavelli sínum í Vesturbænum. Við ræddum við Jakob strax eftir leik og spurðum hann hvað hafi valdið því að KR tapaði leiknum.

„Það sem ræður úrslitum hér í kvöld er að við erum að tapa of mikið af boltum hérna í seinni hálfleik. Ef þú tapar mikið af boltum á móti liði eins og Keflavík sem vill spila hratt í bakið á þér þá er erfitt að stoppa þá. Þá komast þeir í góðar stöður sóknarlega bæði fyrir utan og inn í teig og það er það sem skilur liðin að í þriðja leikhluta."

Í fjórða leikhluta þá gera KR-ingar atlögu að því að jafna og komast niður í 6 stiga mun en þá er eins og botninn detti úr leik ykkar. Gafst liðið upp?

„Nei það fannst mér ekki. Við hefðum auðveldlega getað gefist upp þegar við vorum 18 stigum undir í þriðja leikhluta en við gáfum þessu séns. Ég talaði við strákana að lið hafi áður verið svona undir í þessu húsi gegn Keflavík og komið til baka og unnið. Við gerðum atlögu að þessu og komumst niður í 6 stig en síðan koma stór skot frá þeim sem gera út um leikinn."

KR eru nýliðar í deildinni í ár. 2 sigrar og 3 töp úr fyrstu 5 leikjunum er staðreynd. Er það yfir eða undir þínum væntingum?

„Ef ég horfi á töp og sigra þá vill maður að sjálfsögðu alltaf fleiri sigra. Það er kannski aðeins undir mínum væntingum. En liðið í heild sinni á þeim stað sem við erum og hvernig við erum að þróast þá er ég nokkuð sáttur við þann stað sem við erum á í dag. Mér finnst við eiga töluvert inni sem er jákvætt miðað við hvernig við erum að spila núna. Þetta tekur alltaf langan tíma að þróa leikinn og vaxa sem lið og mér finnst við eiga töluvert inni til að hámarka það og það er það sem gerir mig spenntan fyrir framhaldinu."

Næsti leikur er gegn Njarðvík á Meistaravöllum. Njarðvíkingar hafa unnið fjóra leiki í röð og eru á mjög góðu sigri. Hvernig sérðu það verkefni fyrir þér?

„Njarðvík er gott lið og er að spila vel. Þetta verður skemmtilegt og erfitt verkefni þar sem Njarðvíkingar virka sem mikið stemmningslið með góða liðsheild og það verður stórt verkefni fyrir okkur að koma til baka eftir tvö töp í röð, koma á okkar heimavöll þar sem við höfum ekki enn þá unnið í vetur og þetta er bara góð áskorun fyrir okkur á þessum tímapunkti," sagði Jakob í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka