Flautukarfa tryggði Cleveland sigurinn

Donovan Mitchell fagnar körfu í leiknum í nótt.
Donovan Mitchell fagnar körfu í leiknum í nótt. AFP/JASON MILLER

Donovan Mitchell reyndist hetja Cleveland Cavaliers í nótt þegar hann skoraði flautukörfu sem tryggði Cleveland eins stigs sigur á Milwaukee Bucks, 114:113.

Það leit allt út fyrir að Milwaukee Bucks myndi ná að vinna leikinn þegar Damian Lillard setti niður körfu þegar tíu sekúndur voru eftir af leiknum og kom hann Bucks einu stigi yfir.

Donovan Mitchell var hinsvegar ekki á því og setti niður flautukörfu til að tryggja Cleveland sigurinn og sá til þess að liðið er enn ósigrað eftir sjö leiki sem er besta byrjun Cleveland Cavaliers síðan 1976.

Mitchell var stigahæstur í liði Cleveland með 30 stig en hjá Milwaukee átti Damian Lillard stórleik en hann skoraði 41 stig. Þá skoraði gríski snillingurinn Giannis Antetokounmpo 34 stig og reif niður 16 fráköst í þokkabót.

Oklahoma enn ósigrað

Oklahoma City Thunder er þá einnig ósigrað en liðið vann sinn sjötta sigur í nótt þegar það vann Los Angeles Clippers, 105:92.

Shai Gilgeous-Alexander var sem fyrr stigahæstur hjá Oklahoma en hann skoraði 25 stig. Hjá Clippers gerði Norman Powell 24 stig.

Oklahoma er efst í Vesturdeildinni en liðið hefur unnið sex leiki og ekki enn tapað leik og er ásamt Cleveland eina liðið í NBA deildinni sem er enn ósigrað.

Önnur úrslit:

Philadelphia 76ers - Memphis Grizzlies 107:124
Charlotte Hornets - Boston Celtics 103:113
Toronto Raptors - Sacramento Kings 131:128
San Antonio Spurs - Minnesota Timberwolves 113:103
Houston Rockets - Golden State Warriors 121:127
Washington Wizards - Miami Heat 98:118
Phoenix Suns - Portland Trail Blazers 103:97
Denver Nuggets - Utah Jazz 129:103

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert