Hringdi strax í ömmu

Agnes Jónudóttir er nýliði í íslenska landsliðinu.
Agnes Jónudóttir er nýliði í íslenska landsliðinu. Eyþór Árnason

Agnes Jónudóttir leikmaður Hauka var valin í íslenska landsliðið í körfubolta í fyrsta skipti fyrir leikina við Slóvakíu annað kvöld og Rúmeníu á sunnudag.

Hún er aðeins 19 ára gömul en hefur verið í stóru hlutverki hjá yngri landsliðum Íslands undanfarin ár. Agnes var ekki í upprunalega hópnum en fékk kallið eftir að tveir leikmenn drógu sig úr hópnum vegna meiðsla.

„Það var skemmtilegt að fá þessar fréttir. Þær komu svolítið á óvart en þegar kallið kemur er maður alltaf tilbúinn. Ég átti ekki von á þessu,“ sagði Agnes í samtali við mbl.is.

„Benni [Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari] bað mig um númerið mitt, hringdi í mig á föstudaginn og bauð mér að koma á æfingu. Ég var ótrúlega ánægð og hringdi strax í ömmu og lét hana vita,“ sagði Agnes glöð í bragði.

Leikirnir fara báðir fram í Ólafssal, heimavelli Agnesar og Haukaliðsins. „Það er geggjað að vera hér í Ólafssal. Ég þekki körfurnar hér vel og þekki stelpurnar ágætlega líka. Þetta er spennandi,“ sagði Haukakonan unga.

Hún er spennt að fá að bera sig saman við leikmenn sterkra evrópskra landsliða. „Ég er mjög spennt. Það er alltaf gaman að fá að bera sig saman við leikmenn í sterkum landsliðum. Við erum spenntar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka