Steph Curry átti stórleik fyrir Golden State Warriors er liðið lagði NBA-meistara Boston Celtics, 118:112, í deildinni í nótt.
Curry skoraði 27 stig, tók sjö fráköst, gaf níu stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum.
Golden State hefur nú unnið fimm leiki í röð og hefur unnið sjö af fyrstu átta leikjum sínum. Boston er einnig með sjö sigra en í níu leikjum.
Hjá Boston var Jayson Tatum stigahæstur með 32 stig. Derrick White bætti við 26 stigum.
Cleveland Cavaliers sló félagsmet þegar liðið hafði betur gegn New Orleans Pelicans, 131:122.
Liðið hefur unnið fyrstu níu leiki sína á tímabilinu og hefur aldrei byrjað tímabil betur í sögu félagsins.
Donovan Mitchell var atkvæðamestur hjá Cleveland með 29 stig.
Stórleikur gamla brýnisins LeBron James dugði ekki til fyrir LA Lakers sem tapaði 131:114 fyrir Memphis Grizzlies.
James skoraði 39 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Þá var Serbinn Nikola Jokic í essinu sínu þegar lið hans Denver Nuggets vann Oklahoma City Thunder 124:122.
Jókerinn var líkt og svo oft áður með þrefalda tvennu er hann skoraði 23 stig, tók 20 fráköst og gaf 16 stoðsendingar.
Úrslit næturinnar:
Boston – Golden State 112:118
New Orleans – Cleveland 122:131
Memphis – LA Lakers 131:114
Denver – Oklahoma City 124:122
Charlotte – Detroit 108:107
Indiana – Orlando 118:111
Atlanta – New York 121:116
Houston – San Antonio 127:100
Dallas – Chicago 119:99
Phoenix – Miami 115:112
LA Clippers – Philadelphia 110:98
Sacramento – Toronto 122:107