„Ég er virkilega stolt,“ sagði körfuknattleikskonan Kolbrún María Ármannsdóttir sem spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Slóvakíu í Ólafssal í kvöld.
Ísland tapaði fyrir Slóvakíu, 78:70, en þrátt fyrir það var frammistaða íslenska liðsins mjög öflug gegn sterku og stóru liði Slóvakíu.
„Þetta er ólýsanleg tilfinning. Næstum fullt hús og þetta var frábært,“ sagði Kolbrún María um að hafa spilað sinn fyrsta landsleik.
Mikil skakkaföll eru í íslenska hópnum en margar lykilkonur eru hættar eða meiddar. Þrátt fyrir það lék ungt lið Íslands virkilega vel en Danielle Rodriguez, sem spilaði einnig sinn fyrsta landsleik, kom frábærlega inn.
„Þetta var mjög flottur leikur hjá okkur. Við áttum smá slæman kafla í öðrum leikhluta þar sem við misstum dampinn. Við gerum vel að koma okkur til baka í leikinn.
Ég er virkilega stolt af þessari frammistöðu þótt að við sigurinn hafi ekki dottið okkar megin.
Við erum með þrusuhóp og sýndum það í kvöld. Við erum með ungan en mjög öflugan hóp. Sem dæmi að fá Dani inn í þetta er frábært, hún er algjör leiðtogi. Það er björt framtíð fram undan, þetta er rétt að byrja,“ bætti Kolbrún við.
„Við spiluðum þokkalega vörn. Þær eru með stórar stelpur og við frekar lágvaxið lið en við náðum að verjast þeim vel. Fráköstin voru hins vegar erfið og stungu okkur í bakið,“ hélt Kolbrún áfram.
Kolbrún skoraði tvo alvöru þrista í þriðja leikhluta og kveikti í salnum. Hún segir það hafa verið æðislegt.
Ísland mætir Rúmeníu í Ólafssalnum á sunnudaginn.
Hvernig ætlið þið að mæta til leiks á sunnudaginn?
„Jafn harðar og í kvöld. Við ætlum að koma og sýna alvöru frammistöðu eins og við gerðum í kvöld, en vinna,“ bætti kokhraust Kolbrún María við.