Það dregur til tíðinda hjá bakverði í kvöld þegar hann fer á sína fyrstu körfuboltaæfingu á ævinni, 36 ára að aldri.
Eftir að hafa einungis æft fótbolta í yngri flokkum og eitthvað örlítið inn í meistaraflokk þótti það tímabært að prófa loksins aðra íþrótt.
Æskuvinir úr Árbænum hafa um langt árabil hist í „old boys“-körfubolta og stundum hefur það borist í tal hvort bakvörður vilji ekki prófa.
Einhver skortur á nýjungagirni hefur komið í veg fyrir það í gegnum árin en nú verður ekki aftur snúið, sérstaklega þegar áformin eru formlega komin á prent í blaði allra landsmanna.
Lesendur mega hafa bakvörð í hugsunum sínum í kvöld því þrátt fyrir að hafa unun af því að horfa á körfubolta er getan vísast ekki mikil. Lítil sem engin raunar.
Það er hætt við því að bakvörður sé aðeins að fara fram úr sér með þessum skrifum en það er allavega gaman að prófa eitthvað nýtt og þá má aldurinn einu gilda.
Bakvörður naut sín best í bakverði í fótbolta, kannski líka í körfubolta?
Bakvörð Gunnars má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.