Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætir því slóvakíska í undankeppni Evrópumótsins í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld. Verkefnið er það fyrsta hjá íslenska liðinu í heilt ár og má því segja að um langþráðan leik sé að ræða.
„Maður er búinn að bíða eftir þessu í heilt ár. Síðasti gluggi var mjög flottur hjá okkur og vonandi fáum við eins góða frammistöðu núna, með sömu ákefð. Við viljum að stelpurnar gefi allt fyrir landsliðið hérna,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Íslands við mbl.is.
Miklar breytingar eru á milli hópa vegna meiðsla og hafa sterkir leikmenn lagt skóna á hilluna undanfarið ár.
„Það er ekki tilvalið að missa svona marga leikmenn á milli verkefna, þegar þú ert að reyna að byggja á síðasta glugga. Það eru margir hávaxnir leikmenn fjarverandi núna og því erum við með minna lið en oft áður. Við bætum það upp öðruvísi,“ sagði Benedikt, sem er spenntur að vinna með afar ungan landsliðshóp.
„Það er ofboðslega gaman að vera með svona ungan hóp. Það hafa verið kynslóðaskipti undanfarin ár. Margar drottningar, sem hafa borið uppi kvennakörfuna og verið fyrirmyndir, eru hættar núna. Mér líst ofboðslega vel á þessa kynslóð sem er að koma upp. Við hikum ekki við að taka þær inn, þrátt fyrir ungan aldur,“ sagði Benedikt Guðmundsson.
Nánar er rætt við Benedikt og Danielle Rodriguez, nýliða í landsliðinu, í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.