Danielle Rodriguez var frábær í sínum fyrsta landsleik fyrir Ísland í tapi fyrir sterku liði Slóvakíu, 78:70, í undankeppni EM í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum í kvöld.
Íslenska liðið er í neðsta sæti F-riðilsins án stiga eftir þrjá leiki en frammistaðan í kvöld var mjög góð, sérstaklega þar sem vantaði lykilmenn.
Danielle var valin í íslenska landsliðið í fyrsta skipti en hún fékk ríkisborgararétt í desember á síðasta ári.
„Þetta var frábært. Ég er stolt að spila fyrir þetta land. Að sjá allt fólkið hérna og orkuna er einstakt.
Ég er bara virkilega stolt,“ sagði Danielle um að hafa spilað sinn fyrsta landsleik.
Þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsti landsleikur Danielle kom hún með mikinn kraft inn og var augljós leiðtogi liðsins inni á vellinum.
„Þegar þú ert elst í liðinu og með mestu reynsluna þá verðurðu að setja tóninn. Hvort sem þetta sé minn fyrsti eða hundraðasti leikur fyrir landsliðið þá verð ég að vera leiðtogi.“
„Ég er mjög stolt af liðinu. Við vorum mun minna lið í dag en börðumst endalaust. Við sýndum mikinn anda og sýndum að það kemur enginn hingað til að vanvirða eða vanmeta okkur.
Við þurfum að vera betri í lengri tíma, skjóta betur og vera með sjálfstraust allan leikinn,“ hélt Danielle áfram.
Hvernig er stemningin fyrir leiknum gegn Rúmeníu næstkomandi sunnudag?
„Ég er mjög spennt. Ef við spilum eins og við gerðum í fyrsta leikhluta og höldum því lengur þá hef ég mikla trú á þessu,“ bætti Danielle við.