„Þó að hún sé þrítug“

Danielle Rodriguez í baráttunni í kvöld.
Danielle Rodriguez í baráttunni í kvöld. mbl.is/Karítas

„Margt virkilega gott í þessum leik,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir tap Íslands fyrir Slóvakíu, 78:70, í undankeppni EM í körfubolta í Ólafssal í kvöld. 

Ísland er enn stigalaust í F-riðlinum en frammistaða liðsins gegn sterku liði Slóvaka var mjög góð.

„Við erum yfir lengur en þær og þær þurftu virkilega að hafa fyrir þessum sigri. 

Ég myndi segja að þetta hafi bara með 50/50 leikur. Síðan sýndi þeirra reynsla og gæði sig undir lokin. 

Þegar lið hafa svona mikla yfirburði í fráköstum eru þau oft að pakka andstæðingum sínum saman, en það gerðist ekki í kvöld. 

Við náðum að vinna það upp með alls konar öðrum hlutum,“ sagði Benedikt eftir leik.

Lögðu sig allar fram

„Þrátt fyrir það var frákastabaráttan alveg fáránlega erfið. Ef við hefðum náð að frákasta betur og þær ekki fengið fleiri en einn möguleika í hverri sókn þá er ég viss um að við hefðum unnið þetta. 

Stelpurnar lögðu sig allar fram í að vinna upp þessa auka 30 sentímetra sem andstæðingurinn hafði á þær.

Það er ekki hægt að ætlast til að við náum öllum þessum fráköstum þegar hæðarmunurinn er svona mikill, líka líkamlegur styrkur. 

Við reyndum að vinna þetta upp á öðru, hraða og krafti. Það vantaði lítið upp á. 

Þessi ákefð, orka og hlaup í vörninni. Þetta krefst alveg gríðarlegrar orku en hefur verið okkar aðalsmerki. 

Mér fannst þær allar koma með það í leikinn. Þetta er eitthvað sem við þurfum að byggja á og halda áfram,“ hélt Benedikt áfram.

Benedikt Guðmundsson.
Benedikt Guðmundsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Hvernig er stemningin fyrir leiknum á sunnudaginn?

„Ég hlakka til leiksins á sunnudaginn og allra landsleikja. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. 

Að fara í þessa bardaga með þessum stelpum er frábært. Erum alltaf litla liðið og þurfum að vinna upp hæðarmun og styrktarmun. Það er svo mikið hjarta í þessum stelpum, sama hvað margir lykilmenn detta út þá koma alltaf nýjar tilbúnar inn.“

Danielle Rodriguez kom glæsilega inn í sinn fyrsta landsleik en hún öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt í desember á síðasta ári. 

„Frábært að fá hana inn. Hún er, eins og við þekkjum öll, frábær leikmaður, liðsmaður og karakter. Hún bætir þetta lið og ég vona að hún verði í landsliðinu næstu tíu árin og jafnvel lengur þó að hún sé orðin þrítug.

Hún á nóg eftir og þessi landsliðsferill er rétt að byrja,“ bætti Benedikt við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert