Þjálfari karlaliðs KR í körfubolta, Jakob Örn Sigurðarson var ánægður með að hafa náð í fyrsta sigur tímabilsins á heimavelli í kvöld þegar KR vann Njarðvík í hörkuleik 86:80. Spurður út í leikinn sagði Jakob þetta.
„Það var margt mjög gott í leiknum í kvöld og skref fram á við myndi ég segja. Stærsta hluta leiksins vorum við góðir varnarlega og svo í seinni hálfleik löguðum við sóknarfráköstin okkar.“
Hvað skapaði þennan fyrsta heimasigur KR á tímabilinu?
„Við náðum að neyða þá í óþægilega hluti, sérstaklega varnarlega. Þeir voru ekki að fá mikið af opnum skotum. Það var allt frekar þröngvað hjá þeim og mér fannst við gera það vel. Það sem síðan skóp sigurinn var að við lokuðum vörninni almennilega.“
Njarðvík skorar 5 stig á fyrstu tæplega sjö mínútunum í fjórða leikhluta. Var það góð vörn KR eða slæm skotnýting Njarðvíkur sem útskýrir lágt stigaskot í upphafi fjórða leikhluta hjá Njarðvík?
„Beint eftir leik finnst mér það góð vörn en ég á eftir að skoða þessi skot sem þeir voru að fá. Mér fannst heilt yfir þeir ekki vera að opna okkur mikið. Kahil og Dwayne voru ekki að fá mikið af opnum skotum.“
Næsti leikur KR er gegn Val á Hlíðarenda. Alvöru grannaslagur. Hvernig verður fyrir KR að fara á Hlíðarenda?
„Þetta verður hörkuleikur. Valsmenn eru að reyna finna sig. Við erum að finna taktinn núna. Þessi deild er samt þannig að það eru allir leikir einhvern veginn stórir leikir og mér finnst það bara skemmtilegt. Það verður klárlega erfitt að fara á Hlíðarenda og sækja sigur en við getum byggt á þessum leik í kvöld og verðum klárir á fimmtudaginn.“
Ef við einföldum dæmið. Njarðvík vann Val og KR vann Njarðvík. Þýðir það þá ekki að KR vinni Val?
„Já eða þú veist. Njarðvík vann líka Keflavík og við töpuðum fyrir Keflavík. En það er bara þannig að ef við mætum ekki rétt stemmdir í leikina þá bara töpum við,“ sagði Jakob Örn í samtali við mbl.is.