Grindavík hefur fengið sekt fyrir háttsemi DeAndre Kane í leik liðsins gegn Hetti í úrvalsdeildinni í körfubolta í Smáranum 17. október síðastliðinn.
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ tók fyrir mál Kanes en hann sleppur við leikbann. Hins vegar fær Grindavík 35 þúsund króna sekt.
Kane truflaði upphitun Hattar í hálfleik liðanna með því að fara upp að Courvoisier McCauley leikmanni Hattar.
Skiptust þeir á orðum og urðu mikil læti í framhaldinu. Dómarar leiksins tóku ekki eftir atvikinu og fengu leikmennirnir tveir því að klára leikinn.
„Mat nefndarinnar er að háttsemi kærða í þessu máli sé ekki jafn líklega til þess fallin að valda skaða á ímynd körfuknattleiks á Íslandi eins og mál þar sem einstaklingar vega af ásetningi eða gáleysi að heiðri hreyfingarinnar með ummælum.
Að því sögðu þá var háttsemi kærða, sem sést greinilega á upptöku, augljós vanvirðing við andstæðinginn sem leikmaðurinn viðhafði að óþörfu. Á þeim grundvelli er sekt kærða hæfilega ákvörðuð 35.000 krónur með vísan til fyrri framkvæmdar,“ kemur fram í úrskurði nefndarinnar.