Franska ungstirnið bætti eigið met

Victor Wembanyama og Jonas Valanciunas í leiknum í nótt.
Victor Wembanyama og Jonas Valanciunas í leiknum í nótt. AFP/Ronald Cortes

Victor Wembanyama átti lygilegan leik þegar hann skoraði 50 stig í 139:130-sigri San Antonio Spurs á Washington Wizards í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Frakkinn, sem er aðeins tvítugur, er þar með fjórði yngsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem afrekar það að skora 50 stig. Einungis Brandon Jennings, LeBron James og Devin Booker voru yngri þegar þeir náðu því.

Wembanyama hafði mest skorað 40 stig í einum leik í NBA-deildinni áður en hann setti niður 50 á 26 mínútum í nótt. Franska ungstirnið setti niður átta þriggja stiga körfur, sem er einnig persónulegt met hjá Wembanyama.

Hann skyggði því aðeins á frábæran leik Jordans Pooles, sem skoraði 42 stig fyrir Washington.

Gríska undrið skoraði enn meira

Gríska undrið Giannis Antetokounmpo mátti ekki minni maður vera en Frakkinn og átti ótrúlegan leik fyrir Milwaukee Bucks í 127:120-sigri á Detroit Pistons í framlengdum leik.

Antetokounmpo skoraði 59 stig, tók 14 fráköst, gaf sjö stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og varði þrjú skot.

Eru þetta næstflest stig sem Grikkinn hefur skorað í einum leik á ferlinum. Mest hefur hann skorað 64 stig.

Aðeins í annað sinn

Karl-Anthony Towns skoraði þá 46 stig fyrir New York Knicks í naumu tapi fyrir Chicago Bulls, 124:123.

Towns tók auk þess tíu fráköst og stal boltanum þrisvar sinnum.

Er þetta aðeins í annað sinn í sögu NBA-deildarinnar sem þrír leikmenn skora 45 stig eða meira á einum keppnisdegi.

Sjötta liðið í sögunni

Cleveland Cavaliers hélt þá magnaðri byrjun sinni á tímabilinu og vann 13. leikinn í röð. Að þessu sinni vann Cleveland Philadelphia 76ers 114:106.

Cleveland er aðeins sjötta liðið í sögu deildarinnar sem vinnur fyrstu 13 leiki sína í henni.

Önnur úrslit:

Orlando - Indiana 94:90
Brooklyn - Boston 114:139
Oklahoma City - New Orleans 106:88
Houston - LA Clippers 111:103
LA Lakers - Memphis 128:123
Portland - Minnesota 106:98
Sacramento - Phoenix 127:104

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert