Taiwo Badmus fór á kostum fyrir Val þegar liðið hafði betur gegn KR í Reykjavíkurslag 7. umferðar úrvalsdeildar karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með sjö stiga sigri Vals, 101:94, en Badmus skoraði 37 stig, tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum.
Þetta var þriðji sigur Íslandsmeistara Vals á tímabilinu en liðið er með 6 stig í 7. sæti deildarinnar eftir brösótta byrjun á tímabilinu. Nýliðar KR eru einnig með 6 stig í 10. sætinu, sex stigum frá fallsæti.
KR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 27:20 að fyrsta leikhluta loknum. Valsmönnum tókst að minnka forskot KR-inga í eitt stig í öðrum leikhluta og var staðan 44:43, KR í vil, í hálfleik.
Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti, skoruðu 31 stig gegn 16 stigum KR og leiddu með 14 stigum að þriðja leikhluta loknum, 74:60. KR tókst að minnka forskot Vals í fimm stig þegar 30 sekúndur voru til leiksloka, 99:94, en lengra komust þeir ekki.
Kári Jónsson skoraði 19 stig fyrir Val, tók tvö fráköst og gaf átta stoðsendingar en Nimrod Hilliard var stigahæstur hjá KR með 33 stig, tvö fráköst og sex stoðsendingar.
N1-höllin á Hlíðarenda, Bónus deild karla, 14. nóvember 2024.
Gangur leiksins:: 2:7, 6:16, 11:22, 20:27, 22:29, 27:33, 33:38, 43:44, 53:44, 60:51, 68:53, 74:60, 76:68, 90:74, 93:82, 101:94.
Valur: Taiwo Hassan Badmus 37/5 fráköst, Kári Jónsson 19/8 stoðsendingar, Frank Aron Booker 15/9 fráköst, Kristinn Pálsson 14/4 fráköst, Sherif Ali Kenny 7, Bruno Levanic 7, Hjálmar Stefánsson 2/6 fráköst/5 stoðsendingar.
Fráköst: 23 í vörn, 3 í sókn.
KR: Nimrod Hilliard IV 33/6 stoðsendingar, Linards Jaunzems 23/7 fráköst, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 12/7 fráköst, Vlatko Granic 10/7 fráköst, Þorvaldur Orri Árnason 9/4 fráköst, Veigar Áki Hlynsson 7.
Fráköst: 20 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Birgir Örn Hjörvarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.
Áhorfendur: 625