Körfuknattleiksdeild Hattar hefur komist að samkomulagi við Frakkann Gedeon Dimoke um að spila með karlaliði félagsins.
Höttur leikur í úrvalsdeildinni þar sem liðið er í níunda sæti með sex stig eftir sjö leiki.
Dimoke er 23 ára framherji sem er 202 sentimetrar á hæð. Segir í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Hattar að ákveðið hafi verið að semja við hann vegna meiðsla Matej Karlovic, en óvíst er hvenær Karlovic verður leikfær á ný.
Frakkinn var síðast á mála hjá Besancon í frönsku C-deildinni þar sem hann lauk síðasta tímabili eftir að hafa leikið mestallan veturinn hjá Atletas Kaunas í Litháen þar sem hann var með 14 stig, fimm fráköst og tvö varin skot að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
Hann er væntanlegur til landsins eftir helgi.