Kristófer Acox brá sér í hlutverk þjálfarans

Kristófer Acox.
Kristófer Acox. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristófer Acox brá sér í hlutverk körfuboltaþjálfarans í gær þegar lið hans Valur tók á móti KR í 7. umferð úrvalsdeildar karla á Hlíðarenda.

Kristófer, sem er 31 árs gamall og fyrirliði Vals, er að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir í oddaleik gegn Grindavík úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í maí.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Valsmanna, er í veikindaleyfi og Jamil Abiad, aðstoðarþjálfari Valsmanna, var veikur og því kom það í hlut Kristófers að stýra liðinu.

Það gekk svo sannarlega upp því Valsmenn fögnuðu sigri í gær, 101:94, en þetta var þriðji sigur Íslandsmeistaranna á tímabilinu.

Kristófer er uppalinn í KR og varð þrívegis Íslandsmeistari með liðinu áður en hann gekk til liðs við Valsmenn sumarið 2020 þar sem hann hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert