ÍR vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld þegar liðið heimsótti Njarðvík í 7. umferð deildarinnar í Njarðvík í kvöld en leiknum lauk með fimm stiga sigri ÍR, 101:96.
ÍR fer með sigrinum úr 12. og næstneðsta sætinu í 11. sætið og er nú með 2 stig en Njarðvík er sem fyrr í 3. sætinu með 8 stig og hefur nú tapað tveimur leikjum í röð.
ÍR leiddi eftir fyrsta leikhluta, 25:23, en Njarðvík skoraði 31 stig gegn 15 stigum ÍR í öðrum leikhluta og var staðan 54:40, Njarðvík í vil, í hálfleik.
ÍR-ingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu 33 stig gegn 17 stigum Njarðvíkur og var staðan 73:71, Njarðvík í vil, að þriðja leikhluta loknum.
ÍR-ingar leiddu allan fjórða leikhluta og þó Njarðvíkingum hafi tekist að minnka forskotið í eitt stig um tíma komust þeir ekki lengra og ÍR fagnaði sigri.
Jacob Falko var stigahæstur hjá ÍR með 33 stig, tvö fráköst og ellefu stoðsendingar. Matej Kavas skoraði 22 stig fyrir ÍR og tók níu fráköst en Dominykas Milka var stigahæstur hjá Njarðvík með 23 stig, 14 fráköst og eina stoðsendingu.