Giannis Agravanis fór mikinn fyrir Tindastól þegar liðið hafði betur gegn Þór frá Þorlákshöfn í 7. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld. Leiknum lauk með öruggum sigri Tindastóls, 101:78, en Agravanis skoraði 27 stig, tók þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum.
Tindastóll fer með sigrinum í efsta sæti deildarinnar í 12 stig, líkt og Stjarnan, en Sauðkrækingar hafa nú unnið sex leiki í röð í deildinni. Þórsarar eru í 7. sætinu með 8 stig en þetta var annar tapleikur liðsins í röð.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og Þórsarar leiddu með 10 stigum að fyrsta leikhluta loknum, 28:18. Tindastóll var sterkari aðilinn í öðrum leikhluta en Þórsarar leiddu þrátt fyrir það í hálfleik með þremur stigum, 47:44.
Tindastóll byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og var staðan 70:69, Tindastóli í vil, að þriðja leikhluta loknum. Það varð svo algjört hrun hjá Þórsurum í fjórða leikhluta þar sem þeir skoruðu einungis 9 stig gegn 31 stigi Tindastóls sem fagnaði öruggum sigri.
Dedrick Basile skoraði 23 stig fyrir Tindastól, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar en Marreon Jackson var stigahæstur hjá Þórsurum með 28 stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.