Hættur með Fjölni og tekur við ÍR

Borche Ilievski er að taka við ÍR á nýjan leik.
Borche Ilievski er að taka við ÍR á nýjan leik. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Borche Ilievski hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Fjölnis í körfuknattleiks og tekur senn við sem þjálfari karlaliðs ÍR.

Norður-Makedóninn Borche, sem hefur þjálfað hér á landi um langt árabil, lætur samkvæmt tilkynningu sömuleiðis af störfum sem þjálfari 10. flokks drengja hjá Fjölni.

Renna starfslok hans hjá Fjölni stoðum undir að Borche sé að taka við sem þjálfari karlaliðs ÍR á nýjan leik, en samkvæmt heimildum mbl.is verður hann tilkynntur sem nýr þjálfari liðsins í kvöld.

Vann gríðarlega mikilvægt starf

„Fjölnir Karfa og Borche Ilievski hafa komist að samkomulagi um að hann hætti störfum sem þjálfari meistaraflokks karla og 10. flokks drengja. Borche hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir félagið á þeim tíma sem hann hefur starfað hjá okkur og hefur skilað miklum árangri bæði innan vallar sem utan.

Undir stjórn Borche hefur meistaraflokkur karla staðið sig með prýði, náð góðum árangri í deildarkeppni og verið samkeppnishæfur í öllum leikjum. Þjálfun hans hefur einnig skilað sér í frábærri frammistöðu leikmanna 10. flokks drengja, þar sem hann hefur lagt áherslu á að efla leikskilning, aga og liðsandann.

Við hjá Fjölni erum Borche innilega þakklát fyrir hans ómetanlega framlag til félagsins. Við óskum honum alls hins besta í framtíðinni, bæði á persónulegum og faglegum vettvangi.
Fjölnir Karfa mun halda áfram að byggja á þeim grunni sem Borche hefur lagt, og stefna á áframhaldandi vöxt og framfarir í körfuboltanum,“ sagði í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Fjölnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert